Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Til hamingju Sissi29. september 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarSigþór Árni bestur í 3. umferð að mati sport.is Frábær frammistaða Sigþórs Árna Heimissonar í leiknum gegn Stjörnunni hefur ekki farið framhjá þeim sem fjalla um Olís-deild karla í fjölmiðlum. Eins og kom fram í fréttinni hér á undan voru Sigþór Árni og Heiðar Þór Aðalsteinsson valdir í úrvalslið umferðarinnar af vefnum fimmeinn.is. Vefurinn sport.is bætti um betur og valdi Sigþór Árna besta leikmann 3. umferðar Olís deildarinnar. Að því tilefni birti sport.is eftirfarandi viðtal við Sigþór Árna.Sigþór Árni: „Æfði eins og skepna í sumar“ Akureyringurinn Sigþór Árni Heimisson átti stórleik og skoraði 11 mörk þegar Akureyri sigraði Stjörnuna í 3. umferð Olís-deildar karla. Sigþór var besti leikmaður umferðarinnar að mati Sport.is. „Eftir að hafa skitið á okkur í fyrri hálfleik ræddum við saman og vorum sammála um að við vildum ekki bjóða fólkinu í bænum upp á svona frammistöðu. Við spiluðum svo betur í seinni hálfleik, vörnin small saman og sóknarleikurinn varð betri, svo við unnum að lokum góðan sigur,“ segir Sigþór Árni um leikinn gegn Stjörnunni.Sigþór Árni splundrar vörn Stjörnunnar
Mikið hefur verið rætt um vörn Akureyringa sem er illviðráðanleg á góðum degi. „Þegar allt smellur hjá okkur í vörninni er hrikalega erfitt að komast í gegnum hana. Vörnin hjá okkur er góð og við erum með sterka menn í henni.“ Silfurdrengirnir frá Peking, þeir Sverre Jakobsson og Ingimundur Ingimundarson, spila báðir með Akureyringum í vetur og Sigþór segir þá miðla af reynslu sinni til liðsins. „Þetta er alveg frábært, það er mikil reynsla á bakvið þessa menn. Þeir eru líka ekkert að skamma þegar illa gengur heldur leiðbeina þeir manni bara svo maður geti gert betur. Svo er líka flott að vera með Heimi að einbeita sér alfarið að þjálfarastarfinu en hann er botnlaus uppspretta fróðleiks.“ Sigþór hefur farið mikinn í liði Akureyringa og skorað 18 mörk, þar af 17 í seinustu tveimur leikjum. „Ég er virkilega ánægður með mína frammistöðu. Ég æfði eins og skepna í sumar og það er að skila sér. Það var kominn tími til að hætta að vera efnilegur og fara að verða góður.“ Í viðtali við Sport.is eftir leikinn gegn Stjörnunni talaði Sigþór aðeins um mataræðið. Hann segist mikið pæla í því. „Já maður verður að hugsa um hvað maður setur ofan í sig. Ég byrjaði að taka það í gegn fyrir tveimur árum og það var eiginlega Bjarni Fritzson sem fékk mig til þess. Hann á mikið kredit í velgengni minni.“ Akureyringar styrktu sig töluvert í sumar og vilja margir meina að þegar allir leikmenn liðsins verði leikfærir verði norðanmenn með eitt sterkasta lið deildarinnar. Sigþór segir liðið lítið pæla í aukinni pressu. „Nei ég get ekki sagt að ég finni mikið fyrir því. Það er smá pressa því stjórnin gaf það út í vor að það væri ekki viðunandi að liðið væri alltaf í neðri helming deildarinnar að berjast fyrir sæti sínu, en það er auðvitað alveg hárrétt hjá þeim. Við eigum að vera ofar en það.“ Næst tekur Akureyri á móti Valsmönnum og Sigþór er spenntur fyrir leiknum. „Leikurinn gegn Valsmönnum leggst vel í mig, mann hlakkar alltaf til að fá Gumma og Geira (Guðmund Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson) í heimsókn. Valur er hörkulið með sterka leikmenn í öllum stöðum. Það verður gaman að taka á móti þeim, eins og alltaf.“Sigþór Árni var að sjálfsögðu valinn leikmaður Akureyrarliðsins gegn Stjörnunni
Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook