Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Eitt sögufrægasta handboltafélag landsins30. september 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarValsmenn koma sterkir til leiks á fimmtudaginn Það er sterkt lið Valsmanna sem heimsækir Akureyri næstkomandi fimmtudag. Valsmenn voru ekki langt frá því að fara alla leið í deildinni í fyrravetur en féllu úr leik í fjögurra liða úrslitunum gegn ÍBV í dramatísku fimm leikja einvígi. Eins og menn muna héldu Vestmannaeyingar áfram og enduðu sem Íslandsmeistarar. En það gekk mikið á hjá Val í fyrra, Ólafur Stefánsson var ráðinn þjálfari og fjölmargir leikmenn gengu til liðs við Val, ekki síst til að njóta handleiðslu Ólafs. Þar á meðal voru frændurnir Guðmundur Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson sem Valsmenn höfðu að láni í fyrra vetur. Nú er sá lánssamningur útrunninn og þeir orðnir formlegir liðsmenn Vals.Guðmundur og Geir í leiknum gegn Aftureldingu
Fleiri komu til Valsmanna í fyrrasumar t.d. sneri Elvar Friðriksson heim eftir að hafa leikið í Þýskalandi. Fyrir núverandi tímabil héldu Valsmenn áfram að styrkja leikmannahópinn. Línumaður íslenska landsliðsins, Kári Kristjánsson sneri heim til Íslands og gekk að endingu til liðs við Val. Þá klófestu Valsmenn danska markvörðinn Stephen Nielsen frá Fram. Einnig náðu þeir í ungan og efnilegan Selfyssing, Ómar Inga Magnússon og Daða Gautason frá Gróttu.Kári Kristjánsson er vígalegur á velli
En á móti fóru nokkrir leikmenn frá Val, línumaðurinn og varnartröllið Ægir Hrafn Jónsson fór til Víkings og markvörðurinn Lárus Helgi Ólafsson fór ásamt bróður sínum Þorgrími Smára til HK. En það dró til tíðinda hjá Valsmönnum viku fyrir upphaf keppni í Olís-deildinni þegar tilkynnt var mjög óvænt að Ólafur Stefánsson hefði dregið sig í hlé sem þjálfari, allavega fram til áramóta. Aðstoðarþjálfari Vals í fyrra, Ragnar Óskarsson lét af störfum í sumar og flutti til Frakklands. Núverandi þjálfarar Vals eru Óskar Bjarni Óskarsson sem hefur reyndar áður komið við sögu sem þjálfari Vals og með honum starfar Jón Ríkharður Kristjánsson sem lengi lék með Val og þjálfaði fyrir nokkrum árum m.a. ÍR. En Jón er þó norðanmaður að upplagi, fyrir þá sem ekki vita þá er Jón bróðir Erlings Kristjánssonar og saman léku þeir bræður handbolta með KA og urðu raunar Íslandsmeistarar með KA í knattspyrnu 1989.Þjálfararnir, Jón Kristjánsson og Óskar Bjarni
Eftir þrjár umferðir er Valur með þrjú stig, gerðu jafntefli við ÍR í fyrstu umferð, töpuðu á heimavelli fyrir Aftureldingu en unnu HK í síðustu umferð. Eftir þessa þrjá leiki er Guðmundur Hólmar Helgason markahæstur með 12 mörk, Finnur Ingi Stefánsson og Vignir Stefánsson 11 mörk. Elvar Friðriksson með 7 en línumennirnir Kári Kristjánsson og Orri Freyr Gíslason 6 mörk hvor. Geir Guðmundsson hefur haft fremur hægt um sig, er með 5 mörk eftir þrjá leiki. Valsliðið er gríðarlega vel mannað og er vænst mikils af liðinu. Í síðasta leik þeirra, gegn HK hrökk markvörðurinn Hlynur Morthens heldur betur í gang og var að öðrum ólöstuðum maðurinn á bak við sigur Vals. Hlynur, eða Bubbi eins og hann er kallaður hefur oftar en ekki verið besti leikmaður Vals þegar þeir koma hingað norður og undantekningarlítið fengið matarkörfu Valsliðsins. Reyndar var það Geir Guðmundsson sem fékk körfuna síðast þegar liðin mættust en þá fór Geir á kostum og sá til þess að Valur náði jafntefli úr þeim leik.Hlynur Morthens er klárlega einn öflugasti markvörður deildarinnar
Síðasta leik liðanna lauk sem sé með jafntefli en leikir liðanna hafa yfirleitt verið spennuþrungnir og ekki að efa að það verður mikið fjör í Íþróttahöllinni á fimmtudaginn. Leiktíminn er dálítið óvenjulegur en leikurinn hefst klukkan 18:00 og rétt að minna þá sem ekki hafa náð sér í Gullkort (stuðningsmannaskírteini) að koma tímanlega til að ná sér í kort.
Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook